Tvö fjallvegahlaup á Ströndum

Á sunnudag og mánudag (31. ágúst og 1. september) ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi á Ströndum, sem verða þá væntanlega fjallvegir nr. 90 og 91 í verkefninu. Báðir þessir fjallvegir voru á dagskrá í byrjun júní, en þeim ferðalögum var frestað vegna veðurs.

Dagskráin framundan er sem hér segir:

  1. Sunnudagur 31. ágúst 2025 kl. 10:00:
    Tröllatunguheiði – Úr Geiradal til Steingrímsfjarðar – 26 km
    Þarna er hlaupið eftir gamla bílveginum yfir heiðina, en hann er sjaldan farinn núorðið eftir að vegur kom yfir Þröskulda og niður Arnkötludal. Ég skipulagði reyndar hlaup þarna yfir sumarið 2018, en gat svo ekki verið með sjálfur þannig að ég skráði það ekki sem fjallvegahlaup. Hlaupið hefst á vegamótunum við Vestfjarðaveg neðst í Geiradal, u.þ.b. 1 km vestan við Króksfjarðarnes, og lýkur á vegamótunum við Húsavík í Steingrímsfirði.
  2. Mánudagur 1. september 2025 kl. 10:00:
    Bjarnarfjarðarháls – Frá Kleifum á Selströnd að Kaldrananesi – 13 km
    Þetta hlaup hefst við gamla bæinn á Kleifum, þar sem tengdapabbi fæddist fyrir rúmum 96 árum, og endar við kirkjuna á Kaldrananesi, sem var í sérstöku uppáhaldi hjá honum.

Veðurspáin fyrir hlaupadagana er þokkaleg. Á sunnudag er spáð norðan 5 m/sek, skýjuðu veðri og 10 stiga hita, en á mánudag norðan 7, lítils háttar rigningu og 8 stiga hita, (staðaspá fyrir Hólmavík).

Vonast til að sem flest ykkar sláist í för með mér þessa daga, þó að fyrirvarinn sé skammur.

Hamingjuhlaup á Bjarnarfjarðarhálsi sumarið 2015.

Austurlandsskipulagið

Sólardagur við Lagarfljót 12. júlí 2025.

Hér kemur endanleg (vonandi) dagskrá fyrir fjallvegahlaupin á Austurlandi næstu daga. Sunnudagurinn er óbreyttur frá síðustu áætlun, en ég er búinn að endurskipuleggja þriðjudaginn.

  1. Sunnudagur 13. júlí kl. 11:00
    Gönguskarð við Njarðvík – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km
    Leiðin liggur út undir Stapavík og svo yfir skarðið. Það er ekki ýkja hátt og mun hafa verið farið á jeppa í eitt skipti, nánar tiltekið árið 1946.
  2. Sunnudagur 13. júlí kl. 15:00
    Sandaskörð – Frá Hólalandi í Borgarfirði að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá – 21 km
    Þessi leið fer upp í 600 m hæð og er því ekki fljótfarin. Og kannski getur tímasetningin hnikast til eftir því hvernig gengur á Gönguskarði fyrr um daginn.
  3. Þriðjudagur 15. júlí kl. 10:00
    Stöðvarskarð – Frá Melrakkaeyri í Fáskrúðsfirði til Stöðvarfjarðar – 10 km
  4. Þriðjudagur 15. júlí kl. 14:00
    Gunnarsskarð – Úr botni Stöðvarfjarðar að Ólafsvörðu í Breiðdal – 12 km
    (Tímasetning getur hnikast til eftir því hvernig gengur á Stöðvarskarði).

Að vanda er öllum frjálst að slást í för með mér í fjallvegahlaupunum – á eigin ábyrgð – og þátttakan kostar ekki neitt nema fyrirhöfnina. Gott væri samt að frétta af ferðafélögum fyrirfram (t.d. í síma 862 0538 eða í stefan@environice.is), einkum til að auðvelda skipulagningu ferða fyrir og eftir hlaup.

Breytt dagsetning fyrir austan

Nú styttist í fyrirhuguð fjallvegahlaup á Austurlandi. Þar er ég reyndar búinn að gera eina breytingu, þ.e. að færa hlaupin yfir Gönguskarð og Sandaskörð frá laugardegi fram á sunnudag. Þessir tveir fjallvegir verða sem sagt hlaupnir sunnudaginn 13. júlí nk. Síðan eru aðrir tveir fjallvegir á dagskrá á þriðjudag (15. júlí), en á þessari stundu er ekki 100% ljóst hvaða fjallvegir það verða. Til að einfalda flutninga verða Kækjuskörð og Tó hugsanlega látin bíða betri tíma, en í þeirra stað hlaupið yfir Stöðvarskarð milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar – og Gunnarsskarð milli Stöðvarfjarðar og Breiðdals. Þessar leiðir eru hvor um sig um 12 km og upphaf og endir beggja leiða eru í alfaraleið.

Dagskráin fyrir austan er sem sagt sem hér segir (að óbreyttu):

  1. Sunnudagur 13. júlí kl. 11:00
    Gönguskarð við Njarðvík – Frá Unaósi á Héraði að Hlíðartúni í Njarðvík – 10 km
    Leiðin liggur út undir Stapavík og svo yfir skarðið. Það er ekki ýkja hátt og mun hafa verið farið á jeppa í eitt skipti, nánar tiltekið árið 1946.
  2. Sunnudagur 13. júlí kl. 15:00
    Sandaskörð – Frá Hólalandi í Borgarfirði að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá – 21 km
    Þessi leið fer upp í 600 m hæð og er því ekki fljótfarin. Og kannski getur tímasetningin hnikast til eftir því hvernig gengur á Gönguskarði fyrr um daginn.
  3. Þriðjudagur 15. júlí kl. 10:00
    Kækjuskörð – Frá Þverárbrú í Borgarfirði að Stakkahlíð í Loðmundarfirði – 13 km
    (Ath.: Þetta gæti átt eftir að breytast).
  4. Þriðjudagur 15. júlí kl. 14:00
     – Frá Klyppstað í Loðmundarfirði að Gilsárteig í Eiðaþinghá – 24 km
    (Ath.: Þetta gæti átt eftir að breytast).

Að vanda er öllum frjálst að slást í för með mér í fjallvegahlaupunum – á eigin ábyrgð – og þátttakan kostar ekki neitt nema fyrirhöfnina. Gott væri samt að frétta af ferðafélögum fyrirfram (t.d. í síma 862 0538 eða í stefan@environice.is), bæði til að auðvelda skipulagningu ferða fyrir og eftir hlaup – og til að tryggja að fólk fái fréttir af mögulegum breytingum á dagskrá.

Veðurspáin fyrir sunnudaginn er hreint ágæt eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti af vef Veðurstofu Íslands í kvöld. (Myndin stækkar ef smellt er á hana).

Marðarnúpsfjall á hvítasunnudag?

Marðarnúpsfjall er þarna á milli bleiku punktanna. (Mynd úr gönguleiðakorti (Gönguleiðir frá Skagafirði til Vatnsdals)). Myndin stækkar ef smellt er á hana.

Ég stefni að því að hlaupa yfir Marðarnúpsfjall á hvítasunnudag, frá Marðarnúpi í Vatnsdal að Marðarnúpsseli í Svínadal, en þetta er eitt af fjallvegahlaupunum fimm sem frestað var vegna júníhretsins á dögunum. Ég geri ráð fyrir að leggja af stað frá Marðarnúpi fyrir hádegi, þ.e. í fyrsta lagi kl. 9 og í síðasta lagi kl. 11. Nánari tímasetning verður ákveðin seint á laugardag (daginn fyrir hlaup). Þau sem langar með ættu að vera í sambandi við mig á Messenger eða í síma 8620538 til að vera viss um að fá fréttir af tímasetningunni.

Sunnudagsspáin fyrir þetta svæði er hagstæð; NV-andvari, skýjað og u.þ.b. 5 stiga hiti á láglendi.

Hinir fjallvegirnir fjórir bíða allir betri tíma.

Fjallvegahlaupum vikunnar frestað

Fjallvegahlaupunum sem fyrirhuguð voru 5.-7. júní nk. hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna óhagstæðs veðurútlits. Af veðurspám má ráða að aðstæður á fjallvegum norðanlands verði frekar leiðinlegar – og þess vegna er líklega betra að gera þetta bara seinna.

Spákort RÚV sem fylgir þessum línum sýnir veðurspána fyrir laugardaginn 7. júní, en þá var ætlunin að hlaupa yfir Ólafsfjarðarskarð milli Ólafsfjarðar og Fljóta. Hinir fjallvegirnir sem um ræðir eru Tröllatunguheiði, Bjarnarfjarðarháls, Ketuvegur og Marðarnúpsfjall. Reynt verður að finna nýjar dagsetningar fyrir þessa viðburði fljótlega.

Hellisheiðin 24. maí!

Fjallvegahlaupasumarið 2025 hefst með látum laugardaginn 24. maí nk. kl. 10:00 með hlaupi yfir Hellisheiði, eftir gamla veginum frá Hellisheiðarvirkjun til Hveragerðis. Þar gefst meðal annars tækifæri til að skoða gamla veginn niður Kambana, en umfram allt verður þetta góður dagur í góðum félagsskap og (næstum örugglega) í góðu veðri.

Hlaupið yfir Hellisheiðina verður 82. fjallvegahlaupið frá því að fjallvegahlaupaverkefnið hófst sumarið 2007. Stefnt er að því að fjallvegirnir verði orðnir 100 talsins fyrir árslok 2026, enda er ný fjallvegahlaupabók frá bókaútgáfunni Sölku væntanleg í allar helstu bókabúðir í mars 2027 (á sjötugsafmælinu mínu). Þar verða frásagnir og myndir frá síðustu 50 hlaupum (hlaupum nr. 51-100).

Að sjálfsögðu er öllum boðið að taka þátt í Hellisheiðarhlaupinu. Vegalengdin er ekki nema rétt um 14 km og hraðinn verður bara sá sem flestum hentar. Fólk má t.d. alveg ganga þetta rösklega. Fjallvegahlaupin eru jú skemmtihlaup en ekki keppni. Og staðsetning hlaupsins gerir það að verkum að stór hluti þjóðarinnar ætti að eiga tiltölulega auðvelt með að koma sér á staðinn.

Þátttakan í Hellisheiðarhlaupinu kostar ekki neitt en þátttakendur fara þetta á eigin ábyrgð. Hlaupið er skipulagt í samstarfi við bókaútgáfuna Sölku og þess vegna er fólk beðið að skrá sig á þar til gerðan Facebookviðburð. Hver veit nema efnt verði til uppákomu í lok hlaupsins, þar sem fjöldinn skiptir máli.

Reimum á okkur hlaupaskóna og hittumst við Hellisheiðarvirkjun laugardaginn 24. maí nk. kl. 10:00. Nánar tiltekið hefst hlaupið rétt innan við aðalbyggingar virkjunarinnar, þ.e.a.s. rétt hjá Kolviðarhóli.

Nánari upplýsingar um hlaupaleiðina má nálgast á viðeigandi síðu hérna á vefnum og fyrirspurnir má senda á stefan@umis.is.

Fjallvegahlaupadagskráin 2025 að fæðast

Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2025 er nokkurn veginn tilbúin. Á henni eru hvorki meira né minna en tólf leiðir – og hafa aldrei verið fleiri. Nú eru líka bara tvö sumur eftir af fjallvegahlaupaverkefninu og á þessum tveimur sumrum þarf ég að hlaupa 19 fjallvegi til að ná markmiðinu um100 fjallvegi fyrir sjötugt. Ef ég næ tólf hlaupum í sumar verða ekki nema sjö eftir fyrir sumarið 2026. Hlýtur það ekki að nást?

Dagskrá sumarsins birtist í heild sinni á undirsíðunni Næstu hlaup og verður uppfærð og lagfærð jafnóðum ef einhverjar breytingar verða. Og breytingar verða oft. Ég mun gera mitt besta til að upplýsa um slíkt, þótt seint verði, á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.

Myndin sem fylgir þessari færslu er ein af uppáhalds fjallvegahlaupamyndunum mínum. Hana tók Björk af mér á Ólafsfirði að morgni 24. júní 2008 þegar ég var í þann veginn að leggja upp í fjallvegahlaup nr. 3 og 4 yfir Rauðskörð og Hólsskarð. Þetta ferðalag var eitt af þeim eftirminnilegustu það sem af er, en ekki endilega það gáfulegasta. Þetta tvennt fer oft saman.

Sumarið er búið

Sumarið 2024 er liðið. Klúkuheiði á Vestfjörðum (fjallvegur nr. 81) er eini fjallvegurinn sem bættist í safnið á árinu og því er ljóst að næstu tvö sumur (2025 og 2026) þarf ég að afgreiða samtals 19 fjallvegi til að ná hundraðinu í tæka tíð fyrir útgáfu nýrrar fjallvegahlaupabókar í mars 2027.

Drög að fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2025 verða birt þegar nær dregur. Hugmyndir um verkefnin sem þá verður fengist við eru nánast ómótaðar, en væntanlega verða alla vega Marðarnúpsfjall, Ketuvegur og Flateyjardalsheiði á þeim lista, já og vonandi um það bil sjö fjallvegir til viðbótar. Allar tillögur eru vel þegnar.

Myndin sem fylgir er ekki úr fjallvegahlaupi. Kristinn Óskar Sigmundsson tók sem sagt þessa mynd af mér sitjandi á toppi Hafnarfjalls seint í ágúst í sumar.

Hrútafjörður á fimmtudag

Fimmtudaginn 15. ágúst nk. ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar, nánar tiltekið:

  1. Húksleið – Frá Brandagili í Hrútafirði að Húki í Miðfirði – 9 km
    Þarna er jeppavegur og leiðin líklega ein af þeim auðveldari
    Reikna með að leggja af stað frá Brandagili kl. 10:00
  2. Hrútafjarðarháls – Frá Þóroddsstöðum í Hrútafirði að Skarfshóli í Miðfirði – 11 km
    Veit ekki alveg hversu auðfundin þessi leið er, en vegalengdin er alla vega viðráðanleg.
    Reikna með að leggja af stað frá Þóroddsstöðum kl. 13:30

Eins og stundum áður getur þessi áætlun breyst með litlum fyrirvara, en ég læt þá vita um slíkar breytingar á Facebooksíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins. Sem fyrr er öllum velkomið að slást í för með mér – á eigin ábyrgð. Öryggisins vegna er gott að láta mig vita fyrirfram (sími 862 0538), en það er samt engin skylda.

Ef allt gengur að óskum verður þetta annað og þriðja fjallvegahlaup sumarsins. Enn sem komið er hefur mér sem sagt bara tekist að ljúka einu hlaupi, þ.e.a.s. yfir Klúkuheiði milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Fór þar einn yfir í einkar góðu veðri 16. júlí sl. Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í þeirri ferð.

Sennilega verða fjallvegahlaup sumarsins ekki fleiri en þessi þrjú. Það þýðir að ég þarf að afgreiða samtals 17 fjallvegi tvö síðustu sumur verkefnisins (2025 og 2026). Það ætti ekki að vera mikill vandi ef heilsan er góð.