Á sunnudag og mánudag (31. ágúst og 1. september) ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi á Ströndum, sem verða þá væntanlega fjallvegir nr. 90 og 91 í verkefninu. Báðir þessir fjallvegir voru á dagskrá í byrjun júní, en þeim ferðalögum var frestað vegna veðurs.
Dagskráin framundan er sem hér segir:
- Sunnudagur 31. ágúst 2025 kl. 10:00:
Tröllatunguheiði – Úr Geiradal til Steingrímsfjarðar – 26 km
Þarna er hlaupið eftir gamla bílveginum yfir heiðina, en hann er sjaldan farinn núorðið eftir að vegur kom yfir Þröskulda og niður Arnkötludal. Ég skipulagði reyndar hlaup þarna yfir sumarið 2018, en gat svo ekki verið með sjálfur þannig að ég skráði það ekki sem fjallvegahlaup. Hlaupið hefst á vegamótunum við Vestfjarðaveg neðst í Geiradal, u.þ.b. 1 km vestan við Króksfjarðarnes, og lýkur á vegamótunum við Húsavík í Steingrímsfirði. - Mánudagur 1. september 2025 kl. 10:00:
Bjarnarfjarðarháls – Frá Kleifum á Selströnd að Kaldrananesi – 13 km
Þetta hlaup hefst við gamla bæinn á Kleifum, þar sem tengdapabbi fæddist fyrir rúmum 96 árum, og endar við kirkjuna á Kaldrananesi, sem var í sérstöku uppáhaldi hjá honum.
Veðurspáin fyrir hlaupadagana er þokkaleg. Á sunnudag er spáð norðan 5 m/sek, skýjuðu veðri og 10 stiga hita, en á mánudag norðan 7, lítils háttar rigningu og 8 stiga hita, (staðaspá fyrir Hólmavík).
Vonast til að sem flest ykkar sláist í för með mér þessa daga, þó að fyrirvarinn sé skammur.








